„Það var ótrúlega gaman að mæta út á völlinn aftur. Reyndar var svolítið stress yfir hvað Tryggvi litli leyfði mér að gera en þetta bjargaðist allt eins og best var á kosið. Systir mín var með hann meðan á leiknum stóð,“ sagði handknattleikskonan Steinunn Björnsdóttir í samtali við handbolta.is í gær eftir að hún lék sinn fyrsta leik á tímabilinu með liði sínu. Steinunn fæddi soninn Tryggva 18. nóvember á síðasta ári.
Vill hvorki pela né snuð
„Hann [Tryggvi] fær fyrstu einkunn hjá móður sinni eftir leikinn. Tryggvi vill hvorki pela né snuð svo það er bara ein leið til að róa hann. En þetta slapp allt saman meðan leikurinn stóð yfir,“ sagði Steinunn glöð. Ekki var annað að sjá en að Tryggvi væri himinsæll að vera kominn í fang móður sinnar þegar tíðindamaður handbolta.is hitti mæðginin fljótlega eftir leikinn. Tryggvi hafði þá nýlokið við að fá snæðing.
Meiri yfirvegun
Fyrir á Steinunn sex ára dóttur með sambýlismanni sínum Vilhjálmi Theodóri Jónssyni. Athygli vakti þegar Steinunn var mætt út á leikvöllinn með Fram sex vikum eftir fæðingu dótturinnar. Hún segir hafa sýnt meiri yfirvegun að þessu sinni.
Mætir tvisvar til þrisvar í viku
„Ég byrjaði að æfa með stelpunum í Fram í janúar og mæti tvisvar í viku, að hámarki þrisvar. Hef aðeins verið að prófa mig áfram hvernig líkaminn bregst við og satt að segja hef ég verið mjög heppin og er mjög þakklát líkama mínum fyrir það.
Að þessu sinni er ég sex árum eldri og reyndari. Ekki er samt svo að skilja að ég hafi orðið fyrir bakslagi síðast. Ég þarf bara að hafa aðeins meira fyrir hlutunum núna en fyrir sex árum,“ sagði Steinunn sem virðist í fantaformi miðað við aðstæður.
Nægur tími framundan
„Ég tók þennan leik og síðan eigum við einn leik til viðbótar áður en gert verður hlé í Olísdeildinni vegna landsleikja og úrslita í bikarkeppninni. Ég mun því hafa nægan tíma til þess að koma mér í aðeins betra stand. Vonandi næ ég mér jafnt og þétt á strik með hverri æfingunni sem líður.“
Hefur heyrt í landsliðsþjálfaranum
Framundan eru tveir landsleikir í undankeppni Evrópumótsins um næstu mánaðarmót. Spurð hvort landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson hafi ekki heyrt í henni hljóðið áður en hann velur hóp sinn sem tilkynntur verður eftir helgina svaraði Steinunn með brosi á vör.
„Ég hef heyrt í Arnari í síma. Ég held að það sé rétt hjá mér að sýna hógværð og skynsemi þegar kemur að landsliðinu á næstu vikum,“ sagði Steinunn Björnsdóttir handknattleikskona hjá Fram og þrautreynd landsliðskona.