Handknattleiksmaðurinn Dánjal Ragnarsson, sem lék með ÍBV í rúm tvö ár, varð á laugardaginn bikarmeistari í heimalandi sínu, Færeyjum, með VÍF frá Vestmanna. VÍF vann Neistan frá Þórshöfn, uppeldisfélag Dánjals, 31:23, í úrslitaleik í Høllinni á Hálsi í Þórshöfn. Dánjal varð bikarmeistari með Neistanum fyrir fimm árum.
Dánjal sneri aftur í færeyska handboltann í janúar og gekk til liðs við VÍF eftir að hafa leikið með ÍBV frá haustinu 2021 og varð þar með fyrstur Færeyinga Íslandsmeistari í handknattleik karla ásamt Janus Dam Djurhuus sem einnig lék með ÍBV.
Í úrslitaleiknum á laugardaginn skoraði Dánjal tvö mörk auk þess að leika nær allan leikinn í vörn liðsins.
VÍF er í öðru sæti færeysku úrvalsdeildarinnar með 18 stig eftir 12 leiki, er einu stigi og einum leik á eftir Hoyvikurliðinu H71.
Næstu leikur Dánjals og félaga í VÍF verður við StÍF frá Skála á miðvikudagskvöld þegar deildarkeppnin hefst á nýjan leik.
Kyndill bikarmeistari kvenna
Kyndill varð bikarmeistari í kvennaflokki eftir sigur á Neistanum, 29:21. Landsliðskonan Turið Arge Samuelsen, sem eitt sinn lék með Haukum í skamman tíma, skoraði 15 mörk fyrir Kyndil í úrslitaleiknum.
Finnur Hansson er þjálfari kvennaliðs Neistans.