Haukar hafa framlengt samninga við fjóra lykilleikmenn í meistaraflokki karla. Um er að ræða Adam Hauk Baumruk, Aron Rafn Eðvarðsson, Brynjólfur Snæ Brynjólfsson og Geir Guðmundsson. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Haukum í kvöld. Ekki kemur fram til hversu langs tíma nýju samningarnir gilda.
„Það er mjög mikilvægt fyrir félagið að þessir reynslumiklu og góðu leikmenn hafi allir framlengt samninga sína við félagið. Þetta tryggir vissan stöðugleika í liðinu og leggur grunn að áframhaldandi baráttu um þá titla sem barist er um hér á landi,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Haukar sitja í fimmta sæti Olísdeildar með 20 stig eftir 18 leiki. Á miðvikudaginn mætast lið Hauka og ÍBV í undanúrslitum Poweradebikars karla í Laugardalshöll. Flautað verður til leiks klukkan 18.