ÍBV leikur til úrslita í Poweradebikar karla í handknattleik á laugardaginn í Laugardalshöll. ÍBV vann sannfærandi sigur á Haukum, 33:27, í undanúrslitum í kvöld eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13. Leikmenn ÍBV voru með tögl og hagldir í leiknum frá upphafi til enda. Haukar náðu áhlaupi á síðustu 10 mínútunum og náðu að minnka muninn í tvö mörk. Nær komust þeir ekki.
Eyjamenn byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti, jafnt í vörn sem sókn. Eftir ríflega 11 mínútur voru Haukar tilneyddir til að taka leikhlé, fimm mörkum undir, 7:2. Varnarleikur Eyjamanna sló vopnin úr höndum Hauka sem voru staðir.
Ívar Bessi meiddist
ÍBV varð fyrir áfalli strax á þriðju mínútu þegar Ívar Bessi Viðarsson meiddist á vinstra hné. Hann átti að vera helsti maður í ÍBV 5/1 vörninnni.
Haukar unnu sig inn í leikinn eftir leikhléið sem þeir tóku. Ekki síst gekk þeim betur að mæta sóknarleik ÍBV. Þegar 10 mínútur voru til hálfleiks var forskot ÍBV komið niður í tvö mörk, 9:7. Nær komust þeir ekki.
Leikmenn ÍBV spyrntu sér frá á ný og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13.
Byrjuðu illa
Hvorki gekk né rak hjá Haukum á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Sóknarleikur Hauka var áfram hægur og Eyjamenn voru ekki í erfiðleikum með að mæta þeim. ÍBV skoraði þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks. Haukar komust ekki á blað fyrr en eftir rúmar fimm mínútur.
Tuttugu mínútum fyrir leikslok var munurinn kominn niður í þrjú mörk, 21:18. Stemningin virtist vera að snúast á sveif með Haukum. Magnús Stefánsson þjálfari ÍBV tók hið snarasta leikhlé. Tvö Haukamörk í röð var full mikið af því góða að hans mati. Skömmu síðar var munurinn orðinn fimm mörk á ný.
Átta mínútum fyrir leikslok skoraði Guðmundur Bragi Ástþórsson úr vítakasti fyrir Hauka, 27:23. Elmar Erlingsson skoraði um hæl úr ódýru vítakasti hinum megin vallarins.
Tveggja marka munur
Fimm mínútum fyrir leikslok minnkað Adam Haukur Baumruk muninn í tvö mörk fyrir Hauka, 28:26. Skyndilega var mikil spenna hlaupinn í leikinn. Nokkuð sem virtist ekki endilega vera í spilunum nokkrum mínútum áður eftir að hver tilraun Hauka til að minnka muninn rann út í sandinn.
Varið vítakast
Petar Jokanovic varði vítakast frá Guðmundi Braga þremur mínútum fyrir leikslok í stöðunni 29:26 fyrir ÍBV. Kári Kristján Kristjánsson skoraði 30. mark ÍBV hálfri mínútu síðar eftir að hafa náð frákasti, 30:26. Tvær og hálf mínúta til leiksloka.
Aron Rafn Eðvarðsson stóð í marki Hauka í síðari hálfleik og átti stóran þátt í að Haukum tókst hvað eftir annað að minnka muninn. Hinsvegar var Eyjavörnin of sterk fyrir samherja Arons Rafns að þessu sinni.
Mörk ÍBV: Arnór Viðarsson 6, Kári Kristján Kristjánsson 6, Elmar Erlingsson 6/4, Daniel Esteves Vieira 6, Dagur Arnarsson 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2, Andrés Marel Sigurðsson 2, Gabríel Martinez 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 14/2, 35% – Pavel Miskevich 1/1, 50%.
Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 10/3, Tjörvi Þorgeirsson 5, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Þráinn Orri Jónsson 2, Adam Haukur Baumruk 2, Geir Guðmundsson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Stefán Rafn Sigurmannsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 8. 32% – Magnús Gunnar Karlsson 6, 30%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.