Ungverska stórliðið Györ losaði sig í dag við danska þjálfarann Ulrik Kirkely og aðstoðarmann hans, Kristian Danielsen. Þeir komu til starfa hjá félaginu á síðasta sumri en ráðning Kirkely hafði átt langan aðdraganda.
Ástæða þess að Kirkely er sagt upp er óánægja stjórnenda félagsins með árangurinn í vetur. Þrátt fyrir frábæran árangur í Meistaradeild kvenna fram til þessa þá var engin ánægja með tap fyrir Ferencváros í úrslitum ungversku bikarkeppninnar um síðustu helgi. Þar á ofan situr Györ í öðru sæti ungversku 1. deildarinnar sem einnig þykir óviðunandi að mati þeirra sem stýra félaginu.
Attila Kun tekur tímabundið við þjálfun Györ af Kirkely.
Kirkely náði frábærum árangri með Odense Håndbold. M.a. vann liðið danska meistaratitilinn 2021 og 2022 auk þess að leika til úrslita á síðasta vori við Team Esbjerg. Einnig var liðið meðal þeirra bestu í Meistaradeildinni. Danielsen var einnig aðstoðarmaður Kirkely í Óðinsvéum.
Ekki unnið Meistaradeildina frá 2019
Györ hefur um langt árabil verið eitt allra öflugasta kvennalið Evrópu í handknattleik. Forsvarsmönnum þess svíður að hafa ekki unnið Meistaradeild Evrópu frá árinu 2019.
Györ hefur sautján sinnum unnið ungverska meistaratitilinn í kvennaflokki og fimmtán sinnum hrósað sigri í bikarkeppninni auk þess að vera valið íþróttalið Ungverjalands í þrígang.
Nokkrir af bestu handknattleikskonum Evrópu leikur með liðinu, þar á meðal norskar og danska landsliðskonur.