- Auglýsing -
- Kari Aalvik Grimsbø var á dögunum afhent heiðursmerki norska handknattleikssambandsins fyrir framlag sitt til norsks handknattleiks. Grimsbø var árum saman einn fremsti markvörður heims. Frá 2005 til 2018 vann hún m.a. níu stórmót með norska landsliðinu. Grimsbø er hætt keppni og er nú m.a. markvarðaþjálfari hjá Byåsen.
- Danski handknattleiksmaðurinn Jesper Nøddesbo ætlar að láta gott heita á handboltavellinum við lok leiktíðar í vor. Nøddesbo er einn þekktasti handknattleiksmaður Dana á síðari árum. Hann er m.a. aðeins einn fjögurra útlendinga sem hefur leikið með Barcelona í a.m.k. tíu ár. Eftir að hann flutti heim frá Katalóníu hefur Nøddesbo leikið með Bjerringbro-Silkeborg. Nøddesbo tók þátt í 223 landsleikjum frá 2001 til 2017 og var m.a. sigurliði Dana á Ólympíuleikunum Ríó fyrir fimm árum undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar.
- Luka Cindric verður frá keppni næstu þrjár vikur með Barcelona vegna meiðsla í læri. Þetta kom fram á heimasíðu félagsins í gær.
- Norski línumaðurinn Besard Hakaj sem árum saman hefur leikið í Danmörku, nú síðast hjá Ribe-Esbjerg, gengur til liðs við Kristianstad í Svíþjóð í sumar og verður samherji Ólafs Andrésar Guðmundssonar og Teits Arnar Einarssonar. Jonas Wille, sem tekur við þjálfun Kristianstad í sumar, mun hafa Norðmanninn í miklum metum síðan þeir voru saman hjá HC Midtjylland fyrir nokkrum árum. Wille stýrir Mors-Thy í Danmörku út yfirstandandi keppnistímabil.
- Auglýsing -