Markvörðurinn Einar Baldvin Baldvinsson hefur ákveðið að ganga í raðir Gróttu eftir núverandi keppnistímabil. Hann kemur til félagsins frá Val. Einar Baldvin skrifaði undir tveggja ára samning við Gróttu.
Einari Baldvin er ætlað að fylla skarð Stefáns Huldars Stefánssonar sem varið hefur mark Gróttu í vetur. Hann er á láni frá Haukum út þetta tímabil.
Auk þess að leika með meistaraflokki fær Einar það hlutverk að sjá um markmannsþjálfun yngri markvarða hjá félaginu.
Einar Baldvin er fæddur árið 1997 og er uppalinn í Víkingi. Undanfarin ár hefur hann leikið í marki Vals í Olís-deildinni auk þess sem hann varði mark Selfoss tímabilið 2019/2020. Hann á yfir 150 meistaraflokksleiki að baki með Val, Selfossi og Víkingi auk leikja fyrir öll yngri landsliðin.
„Það eru mikil gleðitíðindi að tilkynna komu Einars til félagsins. Þrátt fyrir að vera ungur að markmannsárum er hann með gríðarlega mikla reynslu úr deildinni hér heima sem mun nýtast okkur á næsta tímabili. Við höfum unnið saman hjá Val áður og ég veit því að hverju ég geng. Hann tikkar í öll þau box sem við erum að leita eftir inn í leikmannahópinn og því hægt að segja að hann smellpassi inn í liðið,“ er haft eftir Arnari Daða Arnarssyni, þjálfara Gróttu í tilkynningu frá félaginu.