- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dagskráin: Næst síðasta umferð – spenna jafnt í efri og neðri hluta deildarinnar

Anna Katrín Bjarkadóttir og leikmenn Aftureldingar sækja KA/Þór heim í dag. Mikil eftirvænting ríkir fyrir leiknum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Næst síðasta umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik fer fram í dag. Allir leikir hefjast klukkan 17.30. Í N1-höllinni á Hlíðarenda taka deildarmeistarar Vals á móti Haukum sem eru í harðri keppni við Fram um annað sæti deildarinnar.

Framarar mæta ÍBV í Eyjum. ÍBV er í fjórða sæti og komast hvorki ofar né neðar.

Haukar og Fram hafa 28 stig hvort í öðru til þriðja sæti. Hvert stig er mikilvægt því liðið sem hafnar í öðru sæti situr yfir í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eins og deildarmeistararnir.

Sigurhátið

Leikmenn Vals fá sigurlaun sín afhent í leikslok á Hlíðarenda í kvöld. Félagið hefur sett upp dagskrá í tilefni verðlaunaafhendingarinnar í þeirri von að stuðningsmenn félagsins komi og fagni með leikmönnum Vals aðra helgina í röð. Dagskráin hefst klukkan 16.45 og verða bikarmeistarar í 5. og 6. flokki kvenna m.a. heiðraðar áður en flautað verður til leiks Vals og Hauka í meistaraflokki.

Öllu verður tjaldað til

Mikil spenna er í neðri hluta deildarinnar. Öllu verður tjaldað til á Akureyri þegar neðsta liðið, KA/Þór, fær Aftureldingu í heimsókn í KA-heimilið. Afturelding er næst neðst, þremur stigum fyrir ofan KA/Þór sem þarf á sigri að halda til að eiga von um að halda sæti sínu í Olísdeildinni. Afturelding vill einnig forðast fall og helst komast upp fyrir Stjörnuna sem er stigi fyrir ofan í sjötta sæti.

Ætlar sér sjötta sætið

Stjarnan sækir ÍR-inga heim í Skógarsel. ÍR siglir lygnan sjó í fimmta sæti og getur hvorki komist ofar né neðar hvernig sem gengur á endasprettinum. Stjarnan ætlar sér að halda sjötta sætinu og þarf þar af leiðandi á sigri að halda.

Liðið sem hafnar í sjötta sæti þegar upp verður staðið að lokinni síðustu umferð Olísdeildar eftir viku tekur þátt í úrslitakepninni. Liðið í sjöunda og næst neðsta sæti fer í umspil um sæti í Olísdeildinni við lið úr Grill 66-deildinni.

Olísdeild kvenna, 20. umferð:
N1-höllin: Valur – Haukar, kl. 17.30 – Síminn, opin dagskrá.
KA-heimilið: KA/Þór – Afturelding, kl. 17.30 – handboltapassinn.
Vestmannaeyjar: ÍBV – Fram, kl. 17.30 – handboltapassinn.
Skógarsel: ÍR – Stjarnan, kl. 17.30 – handboltapassinn.

Miðasala í Stubbur app.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -