- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íþróttir eru óútreiknanlegar

Lovísa Thompson verður í eldlínunni í dag í Ljubljana með stöllum sínum í íslenska landsliðinu. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Fyrirfram eru líkurnar kannski ekki með okkur en það skemmtilega við íþróttir er að aldrei er hægt að slá neinu föstu, þær eru óútreiknanlegar,“ sagði Lovísa Thompson, landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is um væntanlega viðureign Íslands og Slóveníu í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Ljubljana á morgun. Lovísa verður í eldlínu í leiknum með landsliðinu.


„Það verður gaman að máta sig við þessa frábæru leikmenn sem eru í landsliði Slóveníu. Leikmenn sem við mætum alls ekki á hverjum degi. Það verður til dæmis krefjandi verkefni að leika gegn markahæsta leikmanni Meistaradeildarinnar, Önu Gros,“ sagði Lovísa en þess má geta að 12 leikmenn landsliðs Slóveníu leika hjá félagsliðum sem tóku þátt í Meistaradeild Evrópu í vetur.


„Við verðum að mæta nokkuð pressulausar í leikinn. Fæstir reikna með að við gerum stóra hluti í leiknum og mögulega eiga þær heldur ekki von á miklu frá okkur. Kannski getur vanmat af þeirra hálfu hjálpað okkur,“ sagði Lovísa sem leikur í dag sinn 23. A-landsleik.


Lovísa tók þátt í forkeppni HM fyrir um mánuði í Skopje en góður árangur íslenska landsliðsins í þeirri keppni veitti liðinu möguleika á að komast í umspilið hvar það dróst á móti Slóveníu. Lovísa segir ljóst að slóvenska landsliðið er talsvert öflugra en þau lið sem hún og stöllurnar mættu í forkeppninni.


„Maður nær ekki árangri í íþróttum nema að fara með kaldan haus, jákvæðni og baráttugleði inn í hvert verkefni. Ég er mjög spennt fyrir þessum leikjum,“ segir Lovísa sem reiknar með að úrslitin ráðist talsvert af góðri markvörslu og vörn.


„Við höfum skipulagt okkur vel. Við erum með öll verkfærin í höndunum. Nú er undir okkur komið hvernig við nýtum þau,“ sagði Lovísa Thompson, landsliðskona í handknattleik, sem verður í eldlínunni í Lubljana í dag.


Leikur Slóveníu og Íslands hefst klukkan 15.30 í dag og verður í beinni útsendingu á RÚV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -