„Mér fannst við ekkert vera gíraðar í leikinn, svona eins og það væri ekki neitt í húfi fyrir okkur. Við virtumst bara ekki tilbúnar í alvöru stríð eins og Stjörnuliðið var mætt í,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir fimm marka tap fyrir Stjörnunni, 28:23, í næst síðustu umferð Olísdeildar kvenna í Skógarseli í gær.
Stjarnan var með yfirhöndina í leiknum og vann sanngjarnan sigur sem varð til þess að liðið innsiglaði sjötta sæti Olísdeildar og verður með í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem hefst þegar komið verður fram í miðjan apríl. ÍR siglir lygnan sjó í fimmta sæti eftir frábært tímabil.
ÍR komst aðeins inn í leikinn í gær í síðari hálfleik og tókst að minnka muninn í tvö mörk. Sólveig Lára sagði þá aðeins hafa glitt í sitt lið. „Við vorum bara á áttatíu prósent krafti allan leikinn meðan Stjarnan var á hundrað prósent krafti. Stjarnan hafði bara yfir í baráttu og krafti að þessu sinni enda að berjast um sæti í deildinni og úrslitakeppninni,“ sagði Sólveig Lára.
Höfuðhögg á æfingu
Isabella Schöbel Björnsdóttir markvörður ÍR, sem skrifaði undir nýja samning á dögunum, var því miður ekki með í gærkvöld. ÍR-ingar voru þar af leiðandi aðeins með einn markvörð, Hildi Öder Einarsdóttur.
„Því miður þá fékk Isabella höfuðhögg á æfingu í gærkvöld og var ekki með að þessu sinni,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR.
ÍR – Stjarnan 23:28 (10:15).
Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 9/2, Katrín Tinna Jensdóttir 3, Karen Tinna Demian 3/2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 3, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 2, Matthildur Lilja Jónsdóttir 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 7/1, 20%.
Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 7, Eva Björk Davíðsdóttir 7/2, Helena Rut Örvarsdóttir 5/2, Hanna Guðrún Hauksdóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Anna Karen Hansdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 1, Stefanía Theodórsdóttir 1, Elísabet Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 15, 40,5%.
Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.