Slök skotnýting varð öðru fremur til þess að íslenska landsliðið stendur illa að vígi eftir 10 marka tap fyrir Slóveníu, 24:14, í fyrri viðureign liðanna í Ljubljana í dag í umspili fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer á Spáni í desember. Slóvenar voru sex mörkum yfir að lokum fyrri hálfleik, 13:7. Liðin mætast öðru sinni í Schenkerhöllinni á Ásvöllum á miðvikudagskvöldið.
Skotnýtingin íslenska landsliðsins var innan við 40% sem er ekki vænlegt til árangurs. Amra Pandiz, markvörður Slóvena, átti auðvelt með að verja mörg skot íslensku leikmannanna og var með fyrir vikið ríflega 50 % hlutfallsmarkvörslu.
Framan af leiknum átti íslenska liðið í fullu tré við það slóvenska. Þegar 12 mínútur voru liðnar af leiknum var munurinn aðeins tvö mörk, 7:5. Í stöðunni 9:6 fóru tvö upplögð tækifæri forgörðum til þess að minnka muninn. Upp úr því, síðustu 10 mínúturnar af hálfleiknum, skoraði íslenska landsliðið aðeins eitt mark gegn fjórum. Staðan var 13:7 að loknum fyrri hálfleik.
Fljótlega í síðari hálfleik skildu leiðir liðanna og enn meira upp úr miðjum hálfleiknum þegar helmingsmunur hafði myndast. Sóknarleikurinn var sem fyrr vandamálið. Aðeins tvö íslensk mörk litu dagsins ljós á fyrsta stundarfjórðungnum og vonin fjaraði jafnt og þétt út eftir því sem á hálfleikinn leið.
Varnarleikurinn var lengst af ágætur. Tapið verður ekki skrifað á hann og heldur ekki markverðina. Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 12 skot, eða um 33%. Saga Sif Gísladóttir varði þrjú vítaköst auk þess sem hún lokaði markinu svo ágætlega í fjórða vítakastinu að skyttan sá sitt óvænna og kastaði yfir markið.
Sóknarleikurinn var enn og aftur höfuðverkur íslenska landsliðsins gegn sterkari þjóðum, ekki síst nýtingin því oft lék liðið sig í færi en einnig var á tíðum verið að taka of mikið af erfiðum skotum sem vörn og markvörður Slóvena áttu auðvelt með að ráða við. Hraðaupphlaup og seinni bylgja var spöruð að þessu sinni.
Elizabeth Omoregie lék lausum hala í sóknarleik Slóveníu og var markahæst með níu mörk.
Mörk Íslands: Lovísa Thompson 5, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Díana Dögg Magnúsdóttir 1, Karen Knútsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 12, Saga Sif Gísladóttir 3/3.