- Auglýsing -
- Aron Pálmarsson og samherjar í Barcelona unnu enn einn leikinn í spænsku 1. deildinni með yfirburðum í gærkvöld er þeir lögðu Ángel Ximénez Genil, 37:21, á heimavelli, Palau Blaugrana. Aron skoraði eitt mark í leiknum í þremur skotum. Þetta var 28. sigur Barcelona í deildinni á leiktíðinni. Liðið er lang efst með 56 stig. Bidasoa er 13 stigum á eftir í öðru sæti. Með þessum sigri tryggði Barcelona sér spænska meistaratitilinn ellefta árið í röð í 28. skipti frá upphafi. Um leið er þetta fjórði meistaratitillinn sem Aron vinnur með Barcelona.
- Franska landsliðskonan Orlane Kanor leikur ekki með franska landsliðinu á Ólympíuleikunum í sumar. Kanor sleit hásin á dögunum verður þar af leiðandi frá keppni með Metz og franska landsliðinu næstu mánuði. Kanor hefur átt sæti í franska landsliðinu síðustu fjögur ár og sá fram á að taka þátt í Ólympíuleikunum í fyrsta sinn í sumar.
- Branska Zec, markvörður kvennalandsliðs Slóveníu, leikur ekki handknattleik næstu mánuði. Hún meiddist alvarlega á vinstra hné á fyrstu mínútu viðureignar Slóveníu og Íslands í umspili fyrir HM í Ljubljana á laugardaginn. Skarð er fyrir skildi hjá þýska liðinu VfL Waiblingen þar sem hún hefur verið aðalmarkvörður.
- Dansk/þýski handknattleiksmaðurinn Aaron Mensing afþakkaði sæti í þýska landsliðinu á dögunum þegar Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari hafði samband við hann. Mensing vildi fremur leika fyrir danska landsliðið og var valinn í hópinn fyrir lokaleikina í undankeppni EM sem fara fram í kringum mánaðarmótin. Mensing leikur nú með Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni. Foreldrar hans eru þýskir en Mensing fæddist í Sønderborg í Danmörku fyrir 23 árum. Hann lék með unglingaliði Flensburg en flutti svo aftur norður yfir landamærin og var í herbúðum SönderjyskE í nokkur ár eða þangað til á síðasta ári að hann gekk til liðs við Holstebro.
- Auglýsing -