Stiven Tobar Valencia og félagar í Benfica féllu úr leik í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í Portúgal í dag þegar þeir töpuðu fyrir Porto á heimavelli, 39:37, í hörkuleik í Lissabon. Orri Freyr Þorkelsson og samherjar hans í Sporting fóru á hinn bóginn fýluferð áleiðis til eyjunnar Madeira þar sem til stóð að þeir mættu liði heimamanna, Madeira SAD.
Ekki var mögulegt að lenda á flugvellinum á Madeira vegna veðurs. Mun það vera harla óvenjulegt. Madeira, er sjálfstjórnarhérað innan Portúgal, um 400 km norður af Kanaríeyjum eða um 520 km undan vesturströnd Norður-Afríku.
Orri Freyr sagði í skilaboðum til handbolta.is í dag að flognir hafi verið tveir eða þrír hringir í kringum eyjuna áður en fullvíst var að ekki var mögulegt að lenda vegna veðurs og farið rakleitt heim til Lissabon. Til stendur að leikurinn fari fram á miðvikudaginn.
Stiven skoraði þrjú mörk fyrir Benfica í tapleiknum í Lissabon í dag.