Nikola Portner markvörður Evrópumeistara SC Magdeburg og svissneska landsliðsins féll á lyfjaprófi sem hann gekkst undir á dögunum. Hann greinir sjálfur frá þessu á samfélagsmiðlum og segist ekki vita sitt rjúkandi ráð enda aldrei neytt ólöglegra lyfja. Í tilkynningu SC Magdeburg í dag kemur fram að Portner sé kominn í frí frá æfingum og leikjum með liðinu, meðan málið er rannsakað og betri upplýsinga beðið. Þar segir ennfremur að félagið styðji leikmanninn sem hefur verið í herbúðum þess í tvö ár og með samning fram til ársins 2027.
Fregnir eru enn sem komið er afar takmarkaðar. Portner segir sjálfur að hann hafi reynst vera með yfir mörkum í niðurstöðum lyfjaprófs en þvertekur fyrir að hafa neytt ólöglegra efna af nokkru tagi. Ekki kemur fram hvort Portner hafi farið í lyfjaprófið, sem nú hefur dregið dilk á eftir sér að loknum leik með SC Magdeburg eða svissneska landsliðinu.
Í tilkynningu SC Magdeburg í dag kemur fram að fregnir séu óljósar sem bendir til þess að það hafi ekki komið inn á borð þess enn sem komið er. Nánari upplýsingum er heitið þegar þær liggi fyrir.
Afar strangt lyfjaeftirlit er með handknattleiksfólki í alþjóðlegri keppni, hvort heldur félagsliða eða hjá landsliðum. Sjaldgæft er að handknattleiksfólk standist ekki lyfjapróf.