Rúnar Sigtryggsson og lærisveinar hans í SC DHfK Leipzig töpuðu afar naumt á heimavelli í kvöld fyrir Hannover-Burgdorf, 27:26, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Grátlega naumara gat tapið ekki verið því Uladzislau Kulesh skoraði sigurmark Hannover-Burgdorf á síðustu sekúndu í annars jöfnum leik.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem er í sjöunda sæti deildarinnar með 32 stig. Leipzig er sjö stigum á eftir í áttunda sæti þegar liðið á sjö leiki eftir.
Viggó var ekki með
Viggó Kristjánsson lék ekki með Leipzig í kvöld, ekkert fremur en upp á síðkastið. Hann er að jafna sig af veikindum. Andri Már Rúnarsson skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu.
Fyrrnefndur Kulesh var markahæstur hjá Hannover-Burgdorf með níu mörk. Luca Witzke skoraði sjö og var atkvæðamestur leikmanna Leipzig. Næstur var Lukas Binder með sex mörk.
Juri Knorr og Tobias Reichmann voru umsvifamestir hjá Rhein-Neckar Löwen í sex marka sigri á Bergischer, 35:29. Knorr skoraði 10 mörk og Reichmann níu. Ýmir Örn Gíslason kom mest við sögu í varnarleik Rhein-Neckar Löwen.
12. tapleikurinn í röð
Þetta var 12. tapleikur Bergischer sem virðist vera fast í næst neðsta sæti og virðist ætla að kveðja deildina í vor ef gæfuhjólið fer ekki að snúast með liðinu í næstu leikjum. Arnór Þór Gunnarsson er í þjálfarateymi liðsins.
Rhein-Neckar Löwen er á hinn bóginn í 10. sæti af 18 liðum, siglir lygnan sjó.
THW Kiel tapaði mikilvægu stigi í efri hluta deildarinnar þegar liðið gerði jafntefli við HSV Hamburg, 28:28. Frederik Bo Andersen jafnaði fyrir Hamborgarliðið í blálokin. Kiel er í fjórða sæti, þremur stigum á eftir Flensburg þegar hvort lið á eftir sjö viðureignir óleiknar.
Staðan: