Íslendingaliðin Skara HF og Kristianstad Handboll jöfnuðu í dag metin í einvígjum við andstæðinga sína í átta liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik kvenna. Skaraliðar lögðu Höörs HK H 65, 28:24, á heimavelli. Kristianstand vann Gautaborgarliðið Önnereds með eins marks mun á heimavelli, 25:24. Berta Rut Harðardóttir skoraði ekki mark fyrir Kristianstad í leiknum.
Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði 6 mörk fyrir Skara auk þess að eiga tvær stoðsendingar. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði ekki mark. Hún átti eina stoðsendingu.
Þriðja umferð átta liða úrslita fer fram á miðvikudaginn. Vinna þarf þrjá leiki til þess að öðlast sæti í undanúrslitum.
Allar fjórar rimmur átta liða úrslita standa jafnar eftir aðra umferð.