Jakob Martin Ásgeirsson leikmaður deildarmeistara FH í handknattleik verður ekki með liðinu gegn ÍBV á morgun í fjórðu viðureigninni í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar karla. Jakob Martin var úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar HSÍ í gær. Nefndin hefur til skoðunar hvort Jakob verði úrskurðaður í lengra bann.
Jakob Martin hlaut útilokun með skýrslu vegna „sérstaklegrar hættulegrar aðgerðar“ í þriðju viðureign FH og ÍBV í Kaplakrika á sunnudaginn. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a).
„Er það mat aganefndar, með vísan til skýrslu dómara, að brotið kunni að verðskulda lengra bann en 1 leik,“ segir í fundargerð aganefndar en nefndin kemur aftur saman í dag vegna málsins og annarra sem kunna hafa ratað inn á borð hennar. FH hefur frest til klukkan 12 á hádegi í dag til að bera í bætifláka fyrir Jakob Martin.
Þetta er í annað sinn á tímabilinu sem Jakob Martin er úrskurðaður í leikbann.
Fjórða viðureign FH og ÍBV fer fram í Vestmannaeyjum á morgun, 1. maí, og hefst klukkan 17. FH hefur tvo vinninga og ÍBV einn. Þrjá vinninga þarf til að komast í úrslit Íslandsmótsins og mæta annað hvort Aftureldingu eða Val.