Aron Pálmarsson, fyrirliði deildarmeistara FH, fékk högg á baugfingur hægri handar um miðjan síðari hálfleik fjórða undanúrslitaleiks FH og ÍBV í úrslitakeppninni í handknattleik í Vestmannaeyjum í gær og kom ekkert meira inn á leikvöllinn.
Í samtali við Vísir segist Aron fara í myndatöku í dag enda líður honum alls ekki vel í fingrinum. Niðurstaða myndatökunnar skýrir væntanlega hvort höggið dragi dilk á eftir sér eða ekki.
Gat ekki haldið á boltanum
„Verkurinn var það mikill að ég gat ekki haldið á boltanum eða kastað,“ segir Aron í samtali við Vísir. Hann kom ekkert við sögu í síðari hluta síðari hálfleiks né í tveimur framlengingum og vítakastkeppni varð að grípa til svo hægt væri að knýja fram hrein úrslit. Munaði svo sannarlega um minna fyrir FH-liðið að vera án Arons, eins og nærri má geta.
Úrslitaleikur FH og ÍBV um sæti í úrslitum Íslandsmótsins fer fram á sunnudaginn í Kaplakrika og hefst klukkan 19.40.
Sjá einnig:
Oddaleikur í Kaplakrika á sunnudagskvöld