Haukar kjöldrógu Þórsara á Akureyri í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld í viðureign liðanna í Olísdeild karla í handknattleik, 17. umferð, lokatölur, 36:17, eftir að níu marka munur var á sveitunum að loknum fyrri hálfleik, 18:9.
Leikmenn Hauka ætluðu ekki að brenna sig á sama soðinu og leikmenn Vals á síðasta sunnudag. Haukar tóku öll völd á leikvellinum strax í upphafi og sýndu mátt sinn og megin allt til leiksloka og undirstrikuðu hversu mikill munur er á liðunum.
Haukar hafa ágætt forskot í efsta sæti deildarinnar með 29 stig og eru fimm stigum á undan FH sem gerði jafntefli við Stjörnuna í kvöld. Þór er í næst neðsta sæti með átta stig, tveimur á eftir Gróttu sem leikur síðar í kvöld við ÍR.
Mörk Þórs: Karolis Stropus 5, Ihor Kopyshynskyi 4, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Hafþór Ingi Halldórsson 2, Þórður Ágústsson 1, Arnþór Gylfi Finnsson 1, Aron Hólm 1, Sigurður Már Steinþórsson 1.
Varin skot: Arnar Þór Fylkisson 7, 24,1% – Jovan Kukobat 2, 13,3%.
Mörk Hauka: Orri Freyr Þorkelsson 7, Stefán Rafn Sigurmannsson 6, Tjörvi Þorgeirsson 3, Adam Haukur Baumruk 3, Guðmundur Bragi Ástþórsson 3, Geir Guðmundsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Heimir Óli Heimisson 2, Atli Már Báruson 2, Kristófer Máni Jónasson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Þráinn Orri Hauksson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 8, 38,1% – Andri Sigmarsson Scheving 1, 20%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.