Gríðarlegur áhugi er fyrir annarri viðureign Aftureldingar og FH um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Leikurinn fer fram að Varmá í Mosfellsbæ annað kvöld, miðvikudag. Miðasala hefst klukkan 12 í dag á stubb.is og er búist við að aðgöngumiðarnir verði rifnir út.
„Ég reikna með að uppselt verði fljótlega eftir að miðasalan hefst, áhuginn er slíkur,“ sagði Haukur Sörli Sigurvinsson formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar við handbolta.is. Miðað við aðstöðuna í íþróttahúsinu að Varmá vonar Haukur að geta tekið á móti um 1.100 áhorfendum á miðvikudagskvöld.
Ekki sama aðstaða og FH
Nærri 2.000 áhorfendur voru á fyrsta úrslitaleik FH og Aftureldingar í Kaplakrika á sunnudagskvöld. „Við búum því miður ekki við sömu aðstöðu og FH,“ sagði Haukur og vísaði til þess að tvær áhorfendastúkur eru í Kaplakrika sem taka við allt að 2.200 áhorfendum eins og raun varð á þegar FH og ÍBV mættust í fimmta og síðasta leik í undanúrslitum á dögunum.
„Við munum reyna að koma eins mörgum á leikinn og við getum. Stúkan hjá okkur tekur 800 manns og mögulega komum við 300 aukalega með pöllum eins og staðan er í dag, gróft á litið,“ sagði Haukur.
Ekki viðbótarstúka
Spurður hvort til greina komi að leigja viðbótarstúku til þess að mæta aðsókninni sagði Haukur deildina ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til þess.
„Við reynum okkar besta til að taka á móti sem flestum og vonum að áhorfendur taka viljann fyrir verkið,“ sagði Haukur Sörli Sigurvinsson formaður meistaraflokksráð Aftureldingar.
Afturelding krækti í fyrsta vinninginn í úrslitarimmunni með þriggja marka sigri í Kaplakrika á sunnudagskvöld, 32:29. Liðið sem fyrr hefur betur í þremur viðureignum hampar Íslandsbikarnum.
Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni
Fyrsti sigur Aftureldingar í Kaplakrika í níu ár – Þorsteinn skoraði 13 mörk