„Það var ekkert annað á dagskrá hjá okkur en að mæta hingað í kvöld og svara fyrir okkur eftir tapið í fyrsta leiknum. Við lögðum líka mikla vinnu í að fara yfir og bæta það sem okkur fannst vanta upp á í fyrstu viðureigninni. Það var frábært að ná þessu sigri,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH við handbolta.is eftir að FH vann Aftureldingu, 28:27, að Varmá í kvöld.
FH jafnaði þar með metin í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. Hvort lið hefur einn vinning. Næsta viðureign fer fram í Kaplakrika á sunnudaginn og hefst klukkan 19.40.
Aron gerði hrikalega vel
„Aron kom inn í liðið hjá okkur í kvöld og gerði hrikalega vel. Við erum svo sannarlega ánægðir að vera með hann í okkar liði. Ég er einnig ánægður með varnarleikinn og vinnusemina sem var í gangi hjá okkur að þessu sinni. Okkur tókst að finna svör eftir fyrsta leikinn. Nú tekur við sama vinnan fyrir næsta leik. Fara yfir leikinn í kvöld og leita leiða til að gera enn betur á sunnudaginn,“ sagði Sigursteinn og bætti við.
Verðum áfram að vera gagnrýnir
„Ég legg ríka áherslu á að við verðum að vera jafn gagnrýnir á okkur frammistöðu eftir þennan leik og fyrstu viðureignina. Þá verður væntanlega árangursríkt fyrir okkur að mæta í troðfullan Krikann á sunnudagskvöld,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við handbolta.is eftir leiknn að Varmá í kvöld.