Valur skrifaði nýjan kafla í íslenska íþróttasögu með því að verða fyrst íslenskra félagsliða til að vinna Evrópukeppni félagsliða. Valur vann Evrópubikarinn í handknattleik karla eftir að hafa lagt Olympiacos samanlagt, 62:61, í tveimur úrslitaleikjum eftir dramatík í síðar leiknum í Piræus í Aþenu í dag sem lauk með vítakeppni, 5:4.
Icelandic Valur are EHF European Cup winners!
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) May 25, 2024
They defeat Olympiakos after penalty shootout!
It’s the first time ever an Icelandic club win a European Cup tournament.#handball pic.twitter.com/Z1CVqWN8AF
Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt félagslið vinnur gullverðlaun í Evrópukeppni félagsliða í boltaíþrótt.
Olympiacos vann leikinn í dag, 31:27, en Valur hafði betur fyrir viku, 30:26. Ekki var framlengt heldur umsvifalaust farið í vítakeppni þar sem Valur hafði betur.
Magnús Óli Magnússon skoraði 27. mark Vals, 31:27, níu sekúndum fyrir leikslok í Aþenu sem tryggði jafna stöðu eftir leikina, tvo, 57:57. Olympiacos átti síðustu sókn leiksins og fékk aukakast rétt áður en leiktíminn var úti. Aukakastið skilaði ekki marki.
Ekki var framlengt heldur farið umsviflaust í vítakeppni. Vítakeppnina vann Valur, 5:4. Helsti markahrókur Olympiacos, Savvas Savvas, skaut í slá úr síðasta vítakastinu.
Lengi vel blés ekki byrlega fyrir Valsliðinu. Illa gekk í fyrri hálfleik, ekki síst í sóknarleiknum þar sem m.a. tapaðist boltinn 10 sinnum. Olympiacos var fimm mörkum yfir í hálfleik, 16:11.
Framan af síðari hálfleik var einnig á brattann að sækja. Sextán mínútum fyrir leikslok tók Óskar Bjarni Óskarsson leikhlé. Þá var Valur sjö mörkum undir, 24:17. Fimm mínútum síðar var forskot Olympiacos komið í fjögur mörk, 26:22.
Mest munaði átta mörkum á liðunum, 24:16, 18 mínútum fyrir leikslok.
Síðustu 10 mínúturnar voru hnífjafnar og æsilega spennandi. Valsliðið sýndi gríðarlega seiglu við að vinna upp forskotið og halda sjó allt til loka þrátt fyrir talsvert mótlæti.
Mörk Vals: Ísak Gústafsson 8, Magnús Óli Magnússon 7, Benedikt Gunnar Óskarsson 5, Agnar Smári Jónsson 3, Allan Norðberg 3, Alexander Petersson 2, Tjörvi Týr Gíslason 1, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 1, Róbert Aron Hostert 1, Andri Finnsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 7, 18% – Arnar Þór Fylkisson 0.
Mörk Olympiacos: Savvas Savvas 10, Ivan Sliskovic 6, Georgios Papavasilis 4, Charalampos Dompris 4, Ivan Vida 3, Angel Montoro 3, Dimitrios Tziras 2, Nikolaos Passias 2, Stefanos Michailidis 1.
Varin skot: Konstantinos Kotanidis 12, 31% – Panagiotis Papantonopoulos 1, 20%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.