- Norski hornamaðurinn Alexander Blonz yfirgefur Noregsmeistara Elverum í sumar og gengur til liðs við Pick Szeged í Ungverjalandi. Blonz er 21 árs gamall. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við Szeged-liðið.
- Forráðamenn Pick Szeged ætla ekki að láta þar við standa því portúgalskir fjölmiðlar halda því fram að landsliðsmaðurinn Miguel Martins sé á leið til ungverska liðsins. Martins leikur með Porto í heimalandi sínu.
- Svíinn þrautseigi, Jonas Källman, kveður Pick Szeged í sumar eftir sjö ár hjá félaginu. Källman er 39 ára gamall og hefur verið fyrirliði Pick Szeged-liðsins síðustu ár. Ósennilegt er talið að Källman leggi skóna á hilluna í sumar.
- TV2 í Danmörku segist hafa heimildir fyrir því að Lasse Mikkelsen núverandi leikmaður MT Melsungen eigi í viðræðum við Skjern í heimalandi sínu. Mikkelsen, sem er 32 ára gamall, gæti þar með fyllt skarðið sem Elvar Örn Jónsson skilur eftir sig en hann kveður Skjern í sumar og verður liðsmaður Melsungen.
- Stevce Alusovski lætur af starfi þjálfara RK Vardar í sumar. Fjölmiðlar í Norður-Makedóníu telja víst að Veselin Vujovic taki við þjálfun stórliðsins af Alusovski.
- Spánverjinn Raul Alonso hverfur úr stóli þjálfara Meshkov Brest í Hvíta-Rússlandi að loknum keppnistímabilinu. Hann hefur verið orðaður við starf hjá Erlangen í Þýskalandi. Uros Zorman þjálfari króatíska liðsins RK Trimo Trebnje og fyrrverandi landsliðsmaður Slóvena er einn þeirra sem nefndur hefur verið til sögunnar sem eftirmaður Alonso.
- Auglýsing -