Aalborg Håndbold varð í dag danskur meistari í handknattleik með naumum sigri á Fredericia HK, lærisveinum Guðmundur Þórðar Guðmundssonar, 27:26, í æsilega spennandi úrslitaleik í Álaborg. Mads Hoxer Hangaard skoraði sigurmarkið 40 sekúndum fyrir leikslok.
Áður en Hoxer skoraði hafði Fredericia átt þess kost að komast yfir. Dæmt var sóknarbrot á liðið. Eftir að Hoxer skoraði markið sem skildi liðin að í lokin fékk Fredericia sókn til að jafna metin en Niklas Landin sá til þess að ekkert varð úr framlengingu.
Álaborgarliðið var fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:8. Lærisveinar Guðmundar Þórðar sýndu tennurnar í síðari hálfleik og unnu upp forskot Álaborgarliða.
Meistarar í sjöunda sinn
Aalborg Håndbold varð þar með danskur meistari í handknattleik karla í sjöunda skipti og í fyrsta sinn frá 2021. Mikkel Hansen lék sinn síðasta leik á ferlinum í dönsku deildarkeppninnar. Hann skoraði þrisvar og átti þrár stoðsendingar. Hansen ætlar að hætta handknattleiksiðkun sem atvinnumaður í sumar. Kappinn gerir sér vonir um að öðlast sæti í keppnisliði Dana á Ólympíuleikunum.
Stefan Madsen þjálfari hættir einnig eftir keppnistímabilið. Síðustu leikir Madsens við stjórnvölin verða um næstu helgi þegar Aalborg-liðið tekur þátt í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í Köln.
Besti árangur í 44 ár
Fredericia HK náði sínum besta árangri í 44 ár undir stjórn Guðmundar Þórðar. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði ekki mark fyrir liðið í leiknum. Hann lét til sín taka í vörninni og var einu sinni vikið af leikvelli.
Íslendingar í fjórða sæti
Skjern vann bronsverðlaunin með öruggum sigri á Ribe-Esbjerg í þriðju og síðustu viðureign liðanna, 39:31, í Skjern. Elvar Ásgeirsson kom ekkert við sögu hjá Ribe-Esbjerg vegna meiðsla. Ágúst Elí Björgvinsson varði tvö skot í marki Ribe-Esbjerg, 17%. Hann skoraði eitt mark.