- Auglýsing -
- Ómar Ingi Magnússon, leikmaður þýsku meistaranna SC Magdeburg, var valinn leikmaður maí-mánaðar í þýsku 1. deildinni í handknattleik í vali sem fór fram á meðal handknattleiksáhugafólks í kjöri á vefsíðu deildarinnar.
- Enginn íslensku handknattleiksmannanna í þýsku 1. deildinni slapp inn í lið ársins í deildinni sem kynnt hefur verið en úr þeim hópi geta lesendur heimasíðu deildarinnar valið leikmann tímabilsins. Danskir og sænskir handknattleiksmenn eru áberandi í liði tímabilsins.
- Bennet Wiegert þjálfari Þýskalandsmeistara SC Magdeburg var valinn þjálfari ársins í þýsku 1. deildinni í árlegu kjöri á meðal þjálfara deildarinnar. Guðjón Valur Sigurðsson, sem hreppti hnossið fyrir ári, hafnaði í öðru sæti að þessu sinni. Guðjón Valur stýrði Gummersbach með glæsibrag í vetur. M.a. tryggði liðið sér sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð í fyrsta sinn í 12 ár.
- Þrátt fyrir að norska meistaraliðið Vipers Kristiansand heltist úr lestinni í Meistaradeild kvenna í handknattleik eftir átta liða úrslit þá varð Anna Vyakhireva leikmaður liðsins markahæst í Meistaradeild kvenna á nýliðnu keppnistímabili. Hún skoraði 113 mörk í keppninni. Nora Mørk, leikmaður Esbjerg, varð næst með 110 mörk. Sarah Bouktit, Metz, og Henny Reistad, Esbjerg, komu þar á eftir með 107 mörk hvor.
- Sænski handknattleiksmaðurinn Simon Jeppsson hefur gengið til liðs við norska meistaraliðið Kolstad. Jeppsson kvaddi stuðningsmenn HC Erlangen á sunnudaginn eftir að liðið slapp við fall úr efstu deild eftir að hafa stigið krappan dans í lokaumferðunum. Jeppsson verður m.a. samherji þriggja íslenskra landsliðsmanna hjá Kolstad, Sigvalda Björns og Guðjónssonar fyrirliða og Benedikts Gunnars Óskarssonar og Sveins Jóhannssonar. Tveir þeir síðarnefndu bætast í hópinn í sumar eins og Svíinn.
- Auglýsing -