Silfurlið Íslandsmótsins í handknattleik karla, Afturelding, hefur krækt í markvörðinn Einar Baldvin Baldvinsson frá Gróttu eftir því sem fram kemur í tilkynningu í kvöld. Einar Baldvin leysir af hólmi Jovan Kukobat sem kveður félagið eftir tveggja ára dvöl.
Einar Baldvin hefur staðið vaktina í marki Gróttu undanfarin þrjú ár en þar áður með Val og Selfossi auk uppeldisfélagsins, Víkings. Hann hefur verið í hópi allra fremstu markvarða deildarinnar undanfarin ár og var til að mynda með 32,2% hlutfallsmarkvörslu á nýliðnu tímabili, samkvæmt samantekt HBStatz.
Einar Baldvin er fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við karlalið Aftureldingar á síðustu dögum. Fyrir síðustu helgi var tilkynnt um komu Færeyinganna Sveinur Ólafsson og Hallur Arason. Að kveldi kosningadagsins var upplýst að Kristján Ottó Hjálmsson línumaður úr HK bættist í hópinn.
Karlar – helstu félagaskipti 2024
Ljóst er að auk Kukobat markvarðar fer Þorsteinn Leó Gunnarsson til Porto og Jakob Aronsson aftur til Hauka eftir lánsdvöl. Orðrómur er uppi um að fleiri leikmenn Aftureldingar á nýliðnu leikári klæðist öðrum búningum á næstu leiktíð.