„Það hefur verið unnið að þessum skiptum um tíma og nú er þetta gengið í gegn,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í morgun eftir að tilkynnt var um vistaskipti hans til pólsku meistaranna Orlen Wisła Płock. Viktor Gísli átti ár eftir af þriggja ára samningi við franska liðið HBC Nantes. Hann hefur samið við Orlen Wisła Płock til eins árs og verður einn þriggja markvarða liðsins.
Skiptir öllu máli
„Um leið og ég heyrði af áhuga Plock þá varð ég áhugasamur. Ástæðan er einfaldlega sú að markavarðaþjálfunin hjá Plock er mikið betri. Pólska liðið getur boðið upp á daglega markvarðaþjálfun, nokkuð sem mér stóð ekki til boða hjá Nantes. Mér finnst það skipta öllu máli að fá daglega þjálfun til þess að verða betri markvörður. Þess vegna ákvað ég að stökkva á þetta,“ svaraði Viktor Gísli spurður hver væri ástæða þess að hann kaus að yfirgefa Nantes eftir tvö góð ár.
Sjá einnig: Staðfest að Viktor Gísli fari til Wisła Płock í sumar
Óttast ekki samkeppnina
Fyrir eru í fleti tveir markverðir hjá Orlen Wisła Płock, hinn þrautreyndi Króati, Mirko Alilovic og hinsvegar ungur Pólverji, Marcel Jastrzębski. Viktor Gísli segist ekki óttast samkeppnina. Margir leikir standa fyrir dyrum á næstu leiktíð, bæði í Meistaradeild Evrópu og heimafyrir í úrvalsdeildinni og í bikarkeppninni.
Horfir ekki lengra í bili
„Þetta verður barátta okkar á milli en ég er nokkuð vongóður um að fá að leika mikið,“ sagði Viktor Gísli sem vildi lítið gefa upp um hvort hann horfi til þess að vera lengur hjá Orlen Wisła Płock. Hann hefur m.a. verið orðaður við Barcelona og að veran í Póllandi sé aðeins millistökk á þeirri leið. „Þetta er eins árs samningur. Lengra horfi ég ekki í bili. Ég horfi bara á næsta keppnistímabil.“
Viktor Gísli Hallgrímsson verður 24 ára gamall 24. júlí. Hann hóf ungur að standa vaktina í markinu og vakti fljótlega athygli. Viktor Gísli lék með Fram til 2019 þegar hann gekk til liðs við GOG í Danmörku. Með liði félagsins varð hann bæði danskur meistari og bikarmeistari. Sumarið 2022 flutti Viktor Gísli sig til Nantes í Frakklandi og tók við af danska markverðinum Emil Nielsen sem fluttist til Barcelona.
Eftir að hafa leikið með yngri landsliðum Íslands lék Viktor Gísli sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi í Björgvin í apríl 2018. Alls eru A-landsleikirnir orðnir 58 og segja má að Viktor Gísli hafi átt fast sæti í íslenska landsliðinu frá og með EM 2020.
Leggja meiri pening í liðið
„Stjórnendur Plock eru að setja meiri pening í félagið. Þeir ætla sér að byggja það hratt upp á næstu árum,“ sagði Viktor Gísli en orðrómur er uppi um að fleiri leikmenn séu væntanlegir til félagsins í sumar og á næsta ári, þar á meðal Slóveninn Mitija Janc og Frakkinn Melvyn Richardson auk norska markvarðarins Thorbjørn Bergerud.
Hundrað prósent klár um miðjan ágúst
Viktor Gísli missti af síðasta hluta keppnistímabilsins í vor vegna meiðsla í olnboga. Gekkst hann undir aðgerð á vormánuðum. Endurhæfing hefur gengið vel. „Ég hugsa mjög lítið um olnbogann. Ég er orðinn verkjalaus og æfi eins og ég má. Um miðjan júlí má ég byrja að verja bolta. Ég reikna með að verða hundrað prósent klár um miðjan ágúst,“ sagði Viktor Gísli sem hafði haft ama af verkjum í olnboganum í tvö ár þegar ákveðið var að gera aðgerðina og freista þess að bæta úr skák.
„Mér líst bara vel á framhaldið,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður bjartsýnn í samtali við handbolta.is í dag
Orlen Wisła Płock er með bækistöðvar í borginn Płock í miðju Pólland. Íbúar eru nærri 120 þúsund. Félagið var sett á laggirnar 1964. Orlen Wisła Płock varð pólskur meistari í vor í áttunda sinn og í fyrsta skipti frá 2011. Til viðbótar varð liðið bikarmeistari þriðja árið í röð og í 13 sinn frá 1991. Orlen Wisła Płock átti sæti, annað árið í röð, í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð en féll úr leik í 1. umferð útsláttarkeppninni, 16-liða úrslit. Orlen Wisła Płock á sæti víst í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili. Einu verðlaun liðsins í alþjóðlegri keppni er brons í Evrópudeildinni vorið 2021.
Þjálfari liðsins er Spánverjinn Xavi Sabaté. Heimavöllur félagsins er Orlen Arena sem rúmar 5.492 áhorfendur í sæti.
Karlar – helstu félagaskipti 2024