„Við höfum oft leikið mikið betur en við gerðum að þessu sinni. Það er eitthvað sem við þjálfararnir förum yfir. Að minnsta kosti er það tilfinning okkar þjálfaranna að við eigum töluvert inni,“ sagði Ágúst Þór Jóhansson annar þjálfara U20 ára landsliðsins við handbolta.is í gær eftir sigurleikinn á Angóla í fyrstu umferð H-riðils heimsmeistaramótsins í Skopje.
„Við notum daginn til þess að fara yfir það sem betur má fara. Ég vil hinsvegar taka fram að þrátt allt þá var margt gott í okkar leik að þessu sinni. Liðheildin og karakterinn var mikilvægur ásamt sigri á liði sem er í efsta styrkleikaflokki í riðlinum,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.
Næsti leikur íslenska landsliðsins á HM verður á morgun gegn landsliði Norður Makedóníu sem vann bandaríska landsliðið, 32:15, í gærkvöld. Viðureignin við Norður Makedóníu hefst klukkan 16 á morgun. Að vanda ætlar handbolti.is að fylgjast með leiknum.
Íslenska landsliðið æfði í hádeginu í dag og lagði ennfremur á ráðin á fundi áður en leikmenn fengu frjálsan tíma með fjölskyldum sínum sem eru í Skopje að styðja við bakið á liðinu eins og glögglega mátti heyra og sjá í útsendingu frá viðureigninni í gær.
Sjá einnig: