„Vanmat er ekki til í mínum orðabókum. Við munum leggja allt okkar í leikinn, standa faglega að undirbúningi og nálgunina á leikinn. Okkar markmið er að halda áfram að bæta okkar leik og taka framförum, hver sem andstæðingurinn er,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U20 ára landsliðs kvenna þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið að loknum árbít landsliðsins á hóteli þess í Skopje í Norður Makedóníu. Í kvöld lýkur riðlakeppni heimsmeistaramótsins. Ísland mætir Bandaríkjunum í síðustu umferðinni kl. 17.
Lyftingar, fundur, hvíld
Þegar handbolti.is heyrði í Ágústi Þór stóð fyrir dyrum klukkustundar lyftingaæfing hjá landsliðinu í líkamsræktarstöð hótelsins góða sem dvalið er á. Að loknum hádegismat verður hefðbundinn fundur þjálfara með leikmönnum þar sem lagt verður á ráðin fyrir viðureign dagsins. Eftir það hvílast leikmenn áður en haldið verður í keppnishöllina en leikurinn er seinna að staðartíma en fyrri leikirnir tveir eða klukkan 19.
Eftir að hafa tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum HM í gær með 12 marka sigri á landsliði Norður Makedóníu, 29:17, bíður íslenska landsliðsins viðureign við Bandaríkin klukkan 17 í dag að íslenskum tíma. Bandaríska liðið hefur átt erfitt uppdráttar á mótinu og hlotið tvo slæma skelli, fyrir Angóla og Norður Makedóníu.
Verðum að leika af ákefð
„Við förum af fullum krafti í leikinn og berum fulla virðingu fyrir andstæðingnum. Við verðum að leika af fullri ákefð til þess að ná hagstæðum úrslitum í dag,“ sagði Ágúst Þór sem þjálfar íslenska liðið ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni.
Eins og áður þá fylgist handbolti.is með leikjum Íslands á HM 20 ára landsliða í textalýsingu auk þess sem hægt verður að fylgjast með streymi frá leiknum á handbolti.is.
Sjá einnig:
HMU20 kvenna – leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan