Portúgal vann Svartfjallaland, 34:31, í G-riðli heimsmeistaramóts 20 ára landsliða kvenna í handknattleik í Skopje í Norður Makedóníu í morgun og hirti þar með efsta sæti riðilsins og því er hægt að slá föstu hverjir verða andstæðingar íslenska landsliðsins í milliriðlakeppni HM á mánudag og þriðjudag.
Svartfellingar fara stigalausir áfram í milliriðil fjögur og mæta íslenska landsliðinu á mánudaginn kl. 16.30. Daginn eftir leikur íslenska landsliðið gegn portúgalska landsliðinu sem tekur með sér tvö stig inn í milliriðilinn eins og Ísland. Sú viðureign hefst klukkan 16. Báðir leiktímar eru miðaðir við klukkuna heima á Íslandi.
Í kvöld skýrist hvort landslið Angóla eða Norður Makedóníu fylgja íslenska liðinu eftir og verður fjórða liðið í milliriðli fjögur. Hvort liðið sem það verður sem kemst í milliriðil er ljóst að það byrjar án stiga.
Uppfært: Norður Makedónía vann Angóla og fylgir Íslandi inn í milliriðil fjögur hvar andstæðingarnar verða Portúgal og Svartfjallaland.
Milliriðlar 16-liða úrslita verða fjórir með fjórum liðum í hverjum. Af þeim fara tvö efstu liðin áfram í átta liða úrslit.
Riðlakeppni fyrstu umferðar lýkur í kvöld. Um leið og línur skýrast verður leikjadagskrá milliriðla birt á handbolti.is.
HMU20 kvenna – leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan