Aldrei hafa jafn margir fylgst með útsendingum frá Íslandsmótinu í handbolta og á nýliðnu keppnistímabil. Það segir Ingólfur Hannesson í aðsendri grein á handbolti.is í dag. Máli sínu m.a. til stuðnings bendir Ingólfur á að 50 þúsund áhorfendur, í uppsöfnuðu áhorfi, voru á úrslitakeppnisleik í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans í vor. Oft hafi meðaláhorf (þ.e. þeir sem að meðaltali horfðu á heilan leik) verið um 16 þúsund. „Það er margfalt það sem áður hefur sést þegar útsendingar voru svo til einvörðungu í læstri dagskrá,“ skrifar Ingólfur.
4.000 áskrifendur
Ingólfur segir ennfremur að áskrifendur að Handboltapassanum hafi verið um 4.000 í lok keppnistímabilsins, tvöfalt fleiri en áætlanir hafi gert ráð fyrir eftir fyrsta keppnistímabilið. Þetta er t.d. margfalt meira hlutfallslega en áskrifendur að stafrænni handboltarás sænsku deildasamtakanna, svo dæmi sé tekið, segir í grein Ingólfs. Þetta hafi gerst þrátt fyrir byrjunarörðugleika fyrstu vikur keppnistímabilsins. Telur Ingólfur ljóst að innan tveggja ára muni Handboltapassinn getað skapað HSÍ og félögunum umtalsverðar tekjur.
Vekur athygli hjá EHF
Ennfremur kemur fram í grein Ingólfs að forvígismenn Handknattleikssambands Evrópu, EHF, hafi fengið áhuga á því verkefni sem HSÍ vinnur að og m.a. falast eftir fulltrúa Íslands í framleiðslu- og þróunarnefnd sambandsins. Þar á bæ þykir þetta afar merkileg þróun, að landssamband taki sjálft yfir útbreiðslu og stýri nýtingunni með því að taka nýjustu (gervigreindar-) tækni í sína þjónustu, segir í grein Ingólfs Hannessonar sem hægt er að komast í tæri við hér fyrir neðan og eins á forsíðu handbolti.is.