Fjölnir krækti í tvö stig í heimsókn sinni til Ísafjarðar í gærkvöld þegar Grafarvogsliðið lagði liðsmenn Harðar, 35:29, í íþróttahúsinu á Torfnesi. Harðarliðið varð fyrir blóðtöku í leiknum þegar Endijs Kušners fékk höfuðhögg í leiknum. Hann kom ekkert meira við sögu og leitaði sér læknishjálpar.
Harðarmenn segja frá því á Facebooksíðu sinni að annar dómari leiksins hafi ekki tekið atvikið alvarlega, eins og sjá má á meðfylgjandi færslu.
Fjölnismenn sitja þar með sem fastast í þriðja sæti deildarinnar með 21 stig eftir sigurinn á Ísafirði. Hörður er 10 stigum á eftir í þriðja neðsta sæti og hefur svo sannarlega rekið allar hrakspár út í hafsauga en liðinu var spáð falli í spá þjálfara og fyrirliða liðanna í Grill 66-deildinni sem birt var áður en keppni hófst í byrjun september.
Leikskýrslan hefur ekki borist. Þess vegna er ekki hægt að greina frá markaskorun. Staðan á heimasíðu HSÍ hefur verið uppfærð fyrir leikina í gær. Lokaumferð Grill 66-deildar karla fer fram á föstudaginn.
Staðan í Grill 66-deild karla.