U16 ára landslið kvenna í handknattleik er komið í átta lið úrslit Opna Evrópumótsins sem fram fer í Gautaborg. Liðið gerði sér lítið fyrir og vann sinn riðil á mótinu og er þar með öruggt um sæti í hópi átta efstu liðanna. Keppni hefst í milliriðlum á morgun. Þá mætir íslenska landsliðið liði Sviss klukkan 10 og Þýskalandi klukkan 17.30. Þýskaland vann Sviss, 20:17, í riðlakeppninni og fer áfram með tvö stig eins og Ísland. Noregur hefur milliriðlakeppnina án stiga líkt og Sviss.
Í hinum milliriðli átta liða úrslita eru Ungverjaland, Frakkland, Spánn og Svíþjóð.
Eftir sigur og jafntefli í gær þá vann íslenska liðið það færeyska í riðlakeppninni í morgun, 18:12. Síðdegis fylgdi liðið sigrinum eftir með að leggja norska landsliðið, 18:15. Staðan var 10:7 að loknum fyrri hálfleik fyrir íslensku stúlkunum.
Leikurinn var frábærlega spilaður að hálfu Íslands, sér í lagi varnarleikurinn. Íslenska liðið var með yfirhöndina frá upphafi til enda.
Mörk íslenska liðsins: Ebba Guðríður Ægisdóttir 11, Silja Katrín Gunnarsdóttir 2, Laufey Helga Óskarsdóttir 2, Hrafnhildur Markúsdóttir 1, Eva Steinsen Jónsdóttir 1.
Í markinu varði Arna Sif Jónsdóttir 5 skot.
Gegn Færeyingum í morgun var íslenska liðið sterkari allan tímann. Staðan var 9:5 þegar fyrri hálfleikur var að baki.
Mörk íslenska liðsins: Tinna Ósk Gunnarsdóttir 3, Guðrún Antonía Jóhannsdóttir 3, Ebba Guðríður Ægisdóttir 2, Agnes Lilja Styrmisdóttir 2, Laufey Helga Óskarsdóttir 2, Hrafnhildur Markúsdóttir 2, Silja Katrín Gunnarsdóttir 1, Roksana Jaros 1, Vigdís Arna Hjartardóttir 1, Hafdís Helga Pálsdóttir 1.
Í markinu varði Arna Sif Jónsdóttir 10 skot, 45% hlutfallsmarkvarsla.