U16 ára landslið Íslands í handknattleik kvenna leikur við Noreg um 7. sæti á Opna Evrópumótinu sem stendur yfir í Gautaborg. Íslenska liðið tapaði í morgun fyrir sænska landsliðinu með fimm marka mun, 30:25, í krossspili um sæti fimm til átta. Svíar voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:11.
Spánn vann Noreg í hinni viðureign krossspilsins um sæti fimm til átta, 21:20. Leikurinn á morgun verður önnur viðureign Íslands og Noregs á mótinu. Liðin voru saman í riðli og mættust á mánudaginn. Íslenska liðið vann viðureignina, 18:15.
Sænska liðið hóf leikinn betur en íslensku stúlkurnar voru aldrei langt undan og náðu að jafna, 5:5 og 9:9 en staðan í hálfleik var 13:11 sænska liðinu í hag.
Sænsku stúlkurnar byrjuðu svo síðari hálfleik mun betur og náðu fljótt fimm marka forystu. Þrátt fyrir nokkur áhlaup íslenska liðsins náði það aldrei að jafna og fimm marka ósigur niðurstaðan.
Þetta var sjöundi leikur íslensku stúlknanna á mótinu. Þær hafa unnið þrjá leiki, gert eitt jafntefli og tapað þremur leikjum.
Mörkin í leiknum við Svía skoruðu: Laufey Helga Óskarsdóttir 7, Ebba Guðríður Ægisdóttir 5, Agnes Lilja Styrmisdóttir 3, Dagný Þorgilsdóttir 3, Guðrún Antonía Jóhannsdóttir 2, Silja Katrín Gunnarsdóttir 2, Eva Steinsen Jónsdóttir 1, Roksana Jaros 1, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 1.
Í markinu varði Arna Sif Jónsdóttir 5 skot og Danijela Sara B. Björnsdóttir 5.