„Við erum fyrst og fremst spenntir fyrir að byrja eftir þriggja vikna undirbúning og tvo vináttuleiki við Færeyinga,“ segir Einar Andri Einarsson annar þjálfara U20 ára landsliðs karla sem fer af landi brott á mánudaginn áleiðis til Celje í Slóveníu þar sem Evrópumót 20 ára karlalandsliða hefst á miðvikudaginn.
Alls taka 24 landslið þátt í EM að þessu sinni. Íslenska liðið verður í riðli með Úkraínu, Póllandi og Svíþjóð. Fyrsti leikurinn verður við Úkraínumenn á miðvikudaginn klukkan 10 árdegis að íslenskum tíma. Handbolti.is leit inn á æfingu landsliðsins í Kaplakrika í morgun, næst síðustu æfinguna áður en haldið verður af stað til Slóveníu.
Komast í góða stöðu
„Strákarnir og við sem að liðinu standa erum hungraðir í að ná góðum árangri. Við byrjum mótið á að leika í hörkuriðli og eigum Úkraínu í fyrsta leik. Markmiðið er að komast í góða stöðu fyrir framhaldið,“ sagði Einar Andri en efstu liðin í hverjum riðlanna sex fara í átta liða úrslit ásamt tveimur af þeim sem hafna í öðru sæti.
Eitt skref í einu
Einar segir það verða ákveðna kúnst að komast í átta liða úrslit. „Það er alveg ótímabært fyrir okkur og strákana að huga um framhaldið. Til að byrja með verðum við að koma okkur inn í mótið, ná góðu starti og spá svo í framhaldið eftir það,“ sagði Einar Andri.
Vel hefur gengið að nálgast myndefni af andstæðingum íslenska liðsins, ekki síst þeim fyrstu Úkraínumönnum. „Úkraínumenn eru með hörkulið,“ segir Einar Andri en samkvæmt styrkleikröðun þegar dregið var í riðla mótsins þá á lið Úkraínu að vera það lakasta í riðlinum. „Við fyrstu sýn er um gott lið að ræða með hörku skyttur og góða markverði.“
Skammur fyrirvari
Einar Andri segir verkefnið framundan verða krefjandi. Íslenska liðið kemur til Celja sólarhring fyrir fyrsta leik. Þar af leiðandi verða allir að vera fljótir að átta sig á aðstæðum. „Það verður erfitt verkefni. Við ætlumst til þess að menn nýti sína reynslu,“ segir Einar Andri Einarsson sem þjálfar íslenska liðið ásamt Halldóri Jóhanni Sigfússyni.
Nánar er rætt við Einar Andra í myndskeiðsviðtali efst í þessari frétt.
Leikir Íslands á EM U20 ára - riðlakeppni:
10. júlí: Ísland - Úkraína, kl. 10.
11. júlí: Ísland - Pólland, kl. 14.40.
13. júlí: Ísland - Svíþjóð, kl. 14.40.
Allt íslenskir tímar en tveggja stunda munur er á Íslandi og Slóveníu.
Sjá einnig: