- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekki er öll nótt úti ennþá hjá Elvari og félögum

Elvar Ásgeirsson t.v. í leik með Nancy. Mynd/Nancy
- Auglýsing -

Elvar Ásgeirsson skoraði fimm mörk úr sex skotum og átti þrjár stoðsendingar þegar Nancy tapaði fyrir Saran, 32:29, í lokaumferð frönsku B-deildarinnar í handknattleik í gærkvöld.

Nancy hafnaði fjórða sæti deildarinnar en Saran er í fyrsta sæti. Saran tekur þar með sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili eftir þriggja ára veru í næst efstu deild. Pontault, sem varð í öðru sæti mætir sigurliði umspilsins sem stendur fyrir dyrum.

Framundan er umspil um sæti í efstu deild og þess vegna er ekki öll nótt úti ennþá hjá Elvari og samherjum í Nancy um að komast upp í efstu deild. Nancy mætir Dijon sem hafnaði í sjötta sæti í tveimur leikjum sem fara fram 19. og 22. maí. Sigurliðið leikur við Cherbourg eða Massy sem leiða saman hesta sína í hinni viðureign undanúrslita umspilsins. Eftir allt þetta umspil stendur væntanlega eitt lið eftir sem mætir Pontault í leikjum um farseðil upp í efstu deild á komandi leiktíð.

Grétar Ari Guðjónsson markvörður Nice. Mynd/Cavigal Nice Handball

Besti markvörðurinn

Grétar Ari Guðjónsson, markvörður, og samherjar í Nice enduðu leiktíðina í sjöunda sæti og komast ekki i umspilið. Sú staðreynd hefur legið fyrir um skeið.

Nice lauk keppni á jákvæðum nótum með góðum sigri á Billére, 33:32, á heimavelli. Grétar Ari náði sér aldrei þessu vant ekki á strik. Hann varði fimm skot og var með 18% hlutfallsmarkvörslu. Ljóst er að Nice verður að styrkja varnarleikinn fyrir næsta keppnistímabil ætli það sér að ná lengra í deildinni. Varnarleikurinn var Akkilesarhæll liðsins á leiktíðinni á sama tíma og Grétar Ari var besti markvörður deildarinnar með liðlega 32% hlutfallsmarkvörslu á tímabilinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -