Haukur Þrastarson landsliðsmaður í handknattleik er sagður vera búinn að semja við rúmenska meistaraliðið Dinamo Búkarest. Handballbase segir Hauk hafa verið efstan á óskalista spænska þjálfarans David Davis sem tók við þjálfun Dinamo í síðasta mánuði og kaupin frá Industria Kielce verði opinberuð á allra næstu dögum. Gangi þetta eftir verður Haukur fyrsti Íslendingurinn til þess að leika með rúmensku handknattleiksliði.
Í fjögur ár
Haukur gekk til liðs við Indrustria Kielce 2020 og samdi til þriggja ára. Síðar var samningurinn framlengdur til ársins 2025 og á Selfyssingurinn þar með eitt ár eftir af samningstímanum.
Dinamo Búkarest hefur borið ægishjálm yfir handknattleikslið karla í Rúmeníu á síðustu árum og átt sæti í Meistaradeild Evrópu af og til og verður m.a. með í deildinni á næsta tímabili. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á undanförnum þremur árum undir stjórn spænska þjálfarans Xavier Pascual. Hann samdi við Veszprém í júní og tók þá landi hans Davis við.
Óheppinn
Haukur hefur verið einstaklega óheppinn á tíma sínum hjá Kielce og m.a. slitið krossband í tvígang. Á það e.t.v. einhvern þátt í að mörgum hefur þótt hann ekki fá nægilega mörg tækifæri, ekki síst á síðustu leiktíð eftir að hann hafði jafnað sig af síðara krossbandaslitinu.
Ofan á annað hefur fjárhagur Indurstria Kielce ekki verið góður og snemma árs í fyrra var félagið nærri komið í þrot. Upp á síðkastið hefur Kielce selt frá sér leikmenn til að draga úr kostnaði og forðast gjaldþrot. Má þar m.a. nefna söluna á þýska landsliðsmarkverðinum Andreas Wolff til THW Kiel.
Haukur hefur leikið 33 A-landsleiki og skorað 47 mörk. Hann var síðast með íslenska landsliðinu í leikjum við Grikki í mars en gat ekki verið með í viðureignum við Eistlendinga í undankeppni HM í apríl vegna meiðsla.