- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eigum sannarlega möguleika en þurfum toppleik

Halldór Jóhann Sigfússon annar þjálfara u20 ára landsliðsins. Mynd/EHF
- Auglýsing -

„Þetta er mjög sterkt sænskt lið sem við mætum á morgun,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon annar þjálfari U20 ára landsliðs Íslands í handknattleik karla þegar handbolti.is sló á þráðinn til Halldórs í hádeginu í dag. Hann var þá í óða önn að rýna í leik sænska landsliðsins sem íslenska landsliðið mætir í lokaumferð riðlakeppni Evrópumótsins í Lasko í Slóveníu á morgun.

Svíar, eins og Íslendingar, hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlakeppninni, gegn Pólverjum og Úkraínumönnum. Leikurinn, sem hefst klukkan 14.40 á morgun, snýst því um efsta sæti riðilsins og öruggan þátttökurétt í átta liða úrslitum Evrópumótsins.

Strekur varnarleikur

„Við erum með upptöku af sigurleik Svía gegn Dönum fyrir EM auk þess sem við höfum farið vel yfir leik Svía gegn Pólverjum í fyrstu umferð Evrópumótsins. Svíar leika fá kerfi en leika þau mjög vel. Einstaklingarnir eru mjög góðir. Miðjumaðurinn, Axel Månsson, er öflugur. Í gegnum hann fer allt spilið. Månsson er besti maður liðsins. Svo eru stórir og góðir línumenn. Auk þess þá hafa Svíar sennilega leikið einna bestu vörnina í mótinu. Til viðbótar þarf það ekki að koma á óvart að markverðir sænska liðsins eru mjög góðir eins alltaf,“ sagði Halldór Jóhann sem telur þó vera góða möguleika vera fyrir hendi af hálfu íslenska liðsins.

U19 ára landslið Íslands og Svíþjóðar mættust í krossspili um sæti sautján til nítján á HM í Króatíu í ágúst á síðasta ári. Svíar unnu, 41:36. Að sögn Halldórs Jóhanns hafa orðið miklar breytingar á sænska liðinu frá HM í fyrra. Um helmingur leikmannahópsins á HM sat eftir heima í ár og nýir og ferskari leikmenn leystu þá af hólmi.

Pökkuðu Dönum saman

„Við ætlum að reyna á ákveðna hluti í leiknum og mætum að sjálfsögðu fyrst og síðast til leiks í þeim tilgangi að vinna. Við eigum sannarlega möguleika en gerum okkur grein fyrir að Svíar hafa sennilega eitt af fjórum bestu liðum Evrópu í þessum aldursflokki,“ segir Halldór Jóhann og minnir á Svíar hafi hreinlega pakkað Dönum saman í vináttuleik rétt áður en Evrópumótið hófst. Danir eru ekki aukvisar í þessum aldursflokki í handknattleik fremur en í öðrum.

Eigum talsvert inni

„Við erum líka mjög spenntir af fá tækifæri til þess að máta okkar styrkleika gegn eins sterku liði og Svíar hafa á að skipa. Við lékum ekki okkar besta leik gegn Pólverjum í gær. Mér finnst við eiga talsvert inni. Það væri gaman að ná toppleik gegn Svíum og sjá hversu langt það skilar okkar,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon annar þjálfara U20 ára landsliðs Íslands á Evrópumóti 20 ára landsliða karla í handknattleik.

Handbolti.is verður með textalýsingu frá leik Íslands og Svíþjóðar á Evrópumótinu. Leikurinn hefst klukkan 14.40 á morgun, laugardag.

EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, riðlakeppni

Yngri landslið

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -