Arnór Þorri Þorsteinsson hefur skrifað undir nýjan samning við Þór Akureyri og tekur þar með slaginn áfram með liðinu í Grill 66-deild karla á næsta keppnistímabili. Arnór Þorri er einn mikilvægasti leikmaður liðsins sem tapaði í vor naumlega fyrir Fjölni í umspili um sæti í Olísdeildinni.
Arnór Þór skoraði 70 mörk í 18 leikjum með Þór í Grill 66-deildinni á síðasta keppnistímabili og var í hópi markahæstu leikmanna liðsins eins og undanfarin ár.
Auk nýs samnings vð Arnór Þorra þá greindi Þór frá því í dag að Leó Friðriksson hafi ákveðið að söðla um og ganga til liðs við Þór frá KA. Leó er afar efnileg vinstri skytta sem mun leika með 3. flokk og meistaraflokk á komandi tímabili, segir í tilkynningu frá Þór.
Þórsarar ætla sér að vera í toppbaráttu Grill 66-deildarinnar á næstu leiktíð. Þeir hafa þegar fengið liðsauka fyrir átökin með komu þeirra Odds Gretarssonar frá Balingen í Þýskalandi, Hafþórs Más Vignissonar frá Arendal í Noregi og Þórðar Tandra Ágústssonar frá Stjörnunni.
Karlar – helstu félagaskipti 2024