- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ísak og Skarphéðinn tryggðu sætt stig

Ísak Steinsson markvörður U20 ára landsliðsins og norska úrvalsdeildarliðsins Drammen. Ljósmynd/EHF
- Auglýsing -

Ísak Steinsson markvörður tryggði íslenska landsliðinu sannkallað baráttustig gegn Portúgal í fyrstu umferð átta liða úrslita Evrópumóts 20 ára landsliða karla í handknattleik Dvorana Zlatorog íþróttahöllinni í Celje í Slóveníu í dag, 33:33.

Eftir að Skarphéðinn Ívar Einarsson jafnaði metin fjórum sekúndum fyrir leikslok, 33:33, kræktu portúgölsku leikmennirnir sér í vítakast í lokin. Ísak notaði þá tækifærið til þess að verja sitt fyrsta vítakast í mótinu og tryggja annað stigið og það sætt stig. Íslenska liðið varð fyrst til að vinna stig af Portúgal á mótinu.

Ísland var fjórum mörkum undir, 31:27, þegar sex mínútur voru til leiksloka og margt benti til þess að portúgalska liðið væri að sigla báðum stigunum í heimahöfn. Sú varð svo sannarlega ekki raunin. Baráttuandinn geislaði af leikmönnum íslenska liðsins á síðustu mínútunum. Þeir unnu upp forskot Portúgala og skoruðu þrjú af síðustu fjórum mörkum leiksins.

Næsti leikur verður á morgun verður gegn Austurríki og verður flautað til leiks klukkan 10 að íslenskum tíma.

Sannkallað baráttustig af hálfu íslenska liðsins sem átti undir högg að sækja lengst af síðari hálfleiks. Eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 17:15, í hálfleik þar sem íslenska liðið var síst lakara, voru upphafsmínútur síðari hálfleiks erfiðar. Þær minntu á upphaf síðari hálfleiks gegn Svíum. Sóknarleikurinn var slakur. Portúgal náði mest sex marka forskoti, 24:18, þegar um níu mínútur voru komnar inn í síðari hálfleik. Þá tóku þjálfara Íslands, Einar Andri Einarsson og Halldór Jóhann Sigfússon, leikhlé. Vörninni var breytt. Það skilað sér fljótlega og munurinn fór niður í tvö mörk. Nær komst íslenska liðið ekki fyrr en á lokamínútunum sem voru ævintýralega spennandi.

Elmar Erlingsson jafnaði metin beint úr aukakasti þegar 25 sekúndur voru til leiksloka í þann mund sem Einar Andri þjálfari gerði sig líklegan til þess að taka leikhlé. Portúgalar fóru í sókn og virtust með öll ráð í höndum sínum. Það fór á annan veg. Einn þeirra reyndi að ryðja Elmari um koll og var dæmdur brotlegur. Elmar lá eftir en stóð upp eftir umönnun. Þjálfarar íslenska liðsins tóku leikhlé sem skilaði árangri. Skarphéðinn Ívar skoraði eftir vel útfærða sókn og afar góða sendingu Birkis Snæs Steinssonar, 33:33. Ísak markvörður sá svo um að endanlega innsigla stigið góða.

Mörk Íslands: Elmar Erlingsson 7, Össur Haraldsson 4, Reynir Þór Stefánsson4, Birkir Snær Steinsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Atli Steinn Arnarson 2, Daníel Örn Guðmundsson 2, Andri Fannar Elísson 2, Eiður Rafn Valsson 2, Kjartan Þór Júlíusson 1.
Varin skot: Ísak Steinsson 10/1, 29,4% – Breki Hrafn Árnason 0

EMU20 karla: Leikjadagskrá, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir

Handbolti.is var í keppnishöllinni í Celje og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -