Nýir leikmenn streyma í herbúðir ísfirska handknattleiksliðsins Harðar. Í gær var m.a. sagt frá komu serbneskrar skyttu til liðsins og í dag segir í snarpri tilkynningu frá Herði að samningur hafi náðst við japanskan línumann, Kenta Isoda. Hann kemur til Harðar frá Wakunaga.
Þar með verða tveir japanskir línumenn hjá Herði á næstu leiktíð en fyrir er í fleti landsliðsmaðurinn Kenya Kasahara sem nýverið framlengdi veru sína á Ísafirði til tveggja ára. Kasahara stendur í ströngu þessa daga við undirbúning fyrir þátttöku í Ólympíuleiknum.
Hörður leikur annað árið í röð í Grill 66-deild karla á næstu leiktíð. Eftir mikinn endasprett á síðasta keppnistímabili tapaði liðið fyrir Þór í undanúrslitum umspils Olísdeildar. Ekki er ósennilegt að liðin berjist um efsta sæti Grill 66-deildar á næsta keppnistímabili en bæði hafa þau sótt liðsauka síðustu vikurnar.
Sjá einnig:
Framlengir samninginn við Hörð rétt fyrir Ólympíuleikana
Hörður hefur tryggt sér örvhenta skyttu
Hörður hefur samið við landsliðsmann frá Grænhöfðaeyjum
Kusners líkar lífið á Ísafirði
Karlar – helstu félagaskipti 2024