Markvörðurinn Björn Viðar Björnsson slær hvergi af og heldur áfram að leika með ÍBV en hann hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við félagið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá handknattleiksdeild ÍBV í gærkvöld.
Björn hefur leikið með liði ÍBV undanfarin þrjú tímabil og hefur sýnt og sannað mikilvægi sitt í liðinu. Hann dró fram skóna þegar mikið lá við hjá ÍBV eftir að hafa verið að mestu búinn að rifa seglin. Björn lék með Fram og Haukum áður en hann flutti til Norðurlandanna fyrir nokkrum árum ásamt konu sinni Sunnu Jónsdóttur núverandi leikmanni ÍBV og íslenska landsliðsins þar sem hún lék um árabil.
„Björn er frábær markvörður með mikla reynslu og hefur verið mjög dýrmætur fyrir ÍBV síðan hann gekk til liðs við okkur. Við erum ótrúlega ánægð með að hafa tryggt okkur krafta Björns áfram á næsta tímabili og okkur þykir það mikilvægur þáttur í undirbúningi fyrir átökin næsta vetur,“ segir m.a. í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍBV.