- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Bar andstæðing sinn í fanginu af leikvelli

Tamires Morena de Araujo Frossard með Albertinu Kassoma í fanginu. Ljósmynd/IHF
- Auglýsing -

Fyrirliði brasilíska landsliðsins í handknattleik kvenna, Tamires Morena de Araujo Frossard, sýndi einstakt drenglyndi í viðureign Brasilíu og Angóla í lokaumferð riðlakeppni Ólympíuleikanna í gær þegar hún bar fyrirliða Angóla, Albertina Kassoma, í fanginu af leikvelli. Kassoma meiddist á hné á 36. mínútu leiksins.

Eftir að Kassoma hafði fengið aðhlynningu hjá lækni angólska liðsins reyndi hún að staulast af leikvelli með aðstoð læknisins og markvarðar brasilíska liðsins. Þegar ljóst var Kassoma gat ekki stigið í annan fótinn og var miður sín af verkjum greip Frossard fyrirliða brasilíska liðsins til sinna ráða. Hún tók Kassoma í fangið og bar hana af leikvelli undir dynjandi lófaklappi ríflega 5.800 áhorfenda. Þarna þótti hinn sanni Ólympíuandi svífa yfir vötnum.

Ekkert annað kom til greina

„Albertina hefur verið vinkona mín í mörg ár en við þekkjumst vegna þess að báðar leikum við með rúmenskum félagsliðum. Þegar ljóst var að hún var þjáð og gæti ekki gengið af leikvelli með aðstoð kom ekkert annað til greina en að hjálpa henni,“ segir Frossard í samtali við fréttasíðu Alþjóða handknattleikssambandsins.

Kassoma kom ekkert meira við sögu í leiknum. Búið var um hnéið utan vallar áður en hún var flutt undir læknishendur. Óttast er að krossband hafi slitnað.

Brasilía vann leikinn 30:18 og leikur við Noreg í átta liða úrslitum. Angóla er úr leik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -