Íslenska landsliðið í handknattleik er komið í átta liða úrslit á Evrópumóti 18 ára landsliða karla í Podgorica í Svartfjallalandi eftir öruggan sigur á ítalska landsliðinu í dag, 31:24. Staðan í hálfleik var 15:9, íslensku piltunum í hag.
Eftir úrslit annarrar umferðar í F-riðli í dag, en auk sigurs Íslands á Ítalíu skildu Svartfellingar og Færeyingar jafnir, 20:20, geta önnur lið riðilsins ekki komist upp fyrir Ísland í efsta sætið riðilsins í lokaumferðinni á laugardaginn. Þá leikur íslenska liðið við Svartfellinga kl. 15. Ef íslenska liðið tapar þeim leik og Ítalir vinna þá standa Ísland og Ítalía jöfn að stigum í efsta sæti og Ísland hreppir efsta sætið og keppnisrétt í átta liða úrslitum á sigrinum á ítalska liðinu í dag. Svartfellingar og Færeyingar geta aldrei náð fleiri en þremur stigum.
Íslensku piltarnir voru með gott forskot í leiknum nánast frá fyrstu mínútu. Sóknarleikurinn var góður, eins og í gær gegn Færeyingum, og varnarleikurinn traustur með Jens Sigurðarson í stuði í markinu. Jens var verðlaunaður fyrir frammistöðuna og var valinn maður leiksins.
Staðan 15:9 fyrir Ísland eftir fyrri hálfleik. Framan af síðari hálfleik var slen yfir íslensku piltunum og Ítölum tókst hvað eftir annað að minnka muninn í fjögur mörk. Þegar á hálfleikinn leið jókst forskotið á ný. Sigurinn var aldrei í hættu.
EMU18 karla: Leikir, úrslit og staðan, riðlakeppni
Mörk Íslands: Dagur Árni Heimisson 9, Ágúst Guðmundsson 5, Stefán Magni Hjartarson 4, Jens Bragi Bergþórsson 4, Garðar Ingi Sindrason 4, Harri Halldórsson 2, Ævar Smári Gunnarsson 2, Nathan Doku Helgi Asare 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 14 – Elías Sindri Pilman 2.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.