Þótt piltarnir í 18 ára landsliðinu í handknattleik eigi frí frá kappleikjum á Evrópumótinu í dag þá var ekki frí frá æfingum. Piltarnir fóru á létta æfing eftir hádegið í Podgorica í Svartfjallalandi undir stjórn þjálfaranna Heimis Ríkarðssonar og Patreks Jóhannessonar. Lagðar voru línurnar fyrir síðasta leikinn í riðlakeppninni sem verður við Svartfellinga á morgun.
Eins og komið hefur fram er íslenska liðið þegar öruggt um sæti í átta liða úrslitum þótt enn sé ein umferð eftir af riðlakeppninni.
Hér fyrir neðan er nokkra símamyndir frá æfingunni sem handbolti.is fékk sendar frá Magnúsi Kára Jónssyni liðsstjóra.
Leikur Íslands og Svartfjallalands hefst klukkan 15 á morgun, laugardag. Að vanda hefur handbolti.is í hyggju að fylgjast með í textalýsingu.