- Auglýsing -
- Færeyski landsliðsmarkvörðurinn Nicholas Satchwell sem lék með KA um árabil sleit krossband á dögunum og leikur ekki handknattleik næsta árið. Satchwell gekk í síðasta mánuði til liðs við Lemvig sem féll úr dönsku úrvalsdeildinni í vor. Hann átti að vera aðalmarkvörður Lemvig í vetur en skjótt skipast veður í lofti.
- Lemvig hefur tekið á leigu Simon Meinby Lundorf markvörð 20 ára landsliðs Dana frá Mors–Thy til að hlaupa í skarðið fyrir Satchwell.
- Bennet Wiegert þjálfari þýska meistaraliðsins SC Magdeburg segir stöðuna á leikmannahópi liðsins vera slæma eftir Ólympíuleikana og að leikarnir hafa nánast verið ein martröð fyrir lið sitt. Fimm leikmenn liðsins eru meiddir og verða fjarverandi um skeið vegna meiðsla. Þar á meðal virðast fjórir úr leik til lengri tíma. Þýski hornamaðurinn Tim Hornke sleit sin í ilinni í fyrsta leik handknattleikskeppninnar og verður frá keppni í hálft ár. Svíinn Daniel Pettersson varð einnig fyrir meiðslum á leikunum og verður ekki tiltækur fyrr en eftir dúk og disk.
- Landar Petterssons, Felix Claar og Oscar Bergendahl er einnig laskaðir eftir leikana og er óvíst hversu lengi þeir verða frá. Sá síðarnefndi virðist í verri málum. Ofan á annað þá er danski Ólympíumeistarinn Magnus Saugstrup lítillega meiddur. Wiegert vonast til að Daninn verði klár í slaginn innan skamms tíma.
- Keppni í þýsku 1. deildinni hefst 5. september og Meistaradeild Evrópu nokkrum dögum síðar. Magdeburg verður í eldlínunni á báðum vígstöðvum. Hinn 31. águst mætast SC Magdeburg og Füchse Berlin í Meistarakeppni Þýskalands en leikurinn markar upphaf keppnistímabilsins í karlaflokki.
- Auglýsing -