Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, leikur við danska landsliðið í undanúrslitum Evrópumótsins í Podgorica á morgun. Ungverjar og Svíar eigast við í hinni viðureign undanúrslita.
Viðureign Íslands og Danmerkur hefst klukkan 15 að íslenskum tíma, klukkan 17 í Podgorica. Handbolti.is verður vitanlega á vaktinni með sína sígildu og ómissandi textalýsingu.
Sigurliðin í leikjunum á morgun leika til úrslita um Evrópumeistaratitilinn á sunnudaginn. Tapliðin leika um bronsverðlaunin sama dag.
Danir unnu Ungverja, 26:23, síðustu umferð riðlakeppni átta liða úrslita í kvöld og náðu þar með efsta sæti riðilsins. Ísland varð í öðru sæti í hinum riðli átta liða úrslita.
Ungverjar hlutu annað sæti í riðlinum sem Danmörk vann og leika við sænska landsliðið sem vann riðilinn sem Ísland átti sæti í.
Í krossspili um sæti fimm til átta eigast við Þýskaland og Noregur annarsvegar og Spánverjar og Serbar hinsvegar.
EMU18 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir