Færeyingar tryggðu sér í dag síðasta farseðilinn á heimsmeistaramót 19 ára landsliða karla á næsta ári þegar þeir unnu Austurríkismenn, 26:24, í leiknum um 15. sætið á Evrópumóti 18 ára landsliða karla í Podgorica í Svartfjallalandi.
Fjórtán efstu þjóðirnar á mótinu öðlast keppnisrétt á HM 19 ára landsliða eftir ár en vegna þess að Slóvenar, sem verða mótshaldarar HM og þeir eru á meðal fjórtán efstu þá gefur 15. sæti á EM þátttökuréttinn góða sem frændur okkar hlutu með sigrinum í dag.
Kristinn Guðmundsson, fyrrverandi þjálfari m.a. hjá HK og ÍBV, er annar þjálfara færeyska 18 ára landsliðsins á Evrópumótinu. Kristinn hefur þjálfað í Færeyjum í þrjú ár.
Austurríki var með yfirhöndina að loknum fyrri hálfleik, 13:11. Færeysku piltarnir sýndu mátt sinn og megin í síðari hálfleik og sneru við taflinu enda að miklu að keppa. Létu þeir ekki mótbyr í síðustu leikjum slá sig út af laginu á leið sinni að markmiðinu.
Austurrísku piltarnir sitja eftir með sárt ennið.
Slóvenar leika um 9. sætið á morgun við Portúgal og síðar á morgun leikur íslenska landsliðið við það ungverska um bronsverðlaunin.