„Undirbúningur fyrir næsta leik hófst fljótlega eftir viðureignina við Gambíu. Við mætum Egyptum og Rúmenum í milliriðli og búum okkur undir hörkuleiki,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari 18 ára landsliðs kvenna sem tekur þátt í HM í Kína. Frídagur er hjá íslenska liðinu í dag eftir tvo leiki á jafnmörgum dögum.
Í fyrramálið hefst milliriðlakeppnin og íslenska liðið leik við egypska landsliðið klukkan 10 að íslenskum tíma, 18 að staðartíma í Chuzhou í Kína. Daginn eftir mætir íslenska liðið því rúmenska. Að leikjunum loknum skýrist hver verður andstæðingur í krossspili á milli riðla á fimmtudaginn.
Rakel Dögg sagði daginn í dag verið nýttan í svokallaða endurheimt eftir tvo leiki á jafnmörgum dögum. Einnig verði lagt á ráðin fyrir viðureignina við Egypta, bæði með fundum og æfingu þegar á daginn líður. Væntanlega er æfingin að baki þegar þessi grein birtist eftir hádegið á sunnudegi að íslenskum tíma.
„Við búum okkur af kostgæfni undir leik við hörkusterkan andstæðing, landslið Egyptalands á mánudaginn. Það er bara áfram gakk hjá okkur,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari 18 ára landsliðs kvenna í ákveðnum tón í skilaboðum til handbolta.is frá Chuzhou.
Sjá einnig:
HM18 kvenna – leikjadagskrá, milliriðlakeppni, úrslit
Mæta Egyptum og Rúmenum í milliriðlum HM í Kína
Ánægð með tvö stig í mjög erfiðum leik