Íslenska landsliðið í handknattleik gerði jafntefli við Egypta, 20:20, á heimsmeistaramóti 18 ára landsliða kvenna Chuzhou í Kína í dag. Staðan var jöfn, 11:11, eftir fyrri hálfleik. Um var að ræða fyrri viðureign íslenska liðsins í milliriðlakeppninni. Sú síðari verður gegn Rúmenum á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 8 að íslenskum tíma.
Egyptar skoruðu fjögur af síðustu fimm mörkum leiksins í morgun og tókst þar með að tryggja sér annað stigið. Bæði lið fengu tækifæri til þess að skora sigurmarkið í lokið en allt kom fyrir ekki.
Þegar leið nærri lokum leiksins virtist sem íslenska liðið ætlaði að tryggja sér sigur. Því miður þá fór margt í baklás í sóknarleiknum sem varð þess valdandi að Egyptum tókst að krækja í annað stigið.
Víst er að íslenska liðið verður að leika mikið betur á morgun gegn Rúmeníu til þess að eiga möguleika á að fá eitthvað út úr viðureigninni.
Egyptar náðu þar með í sitt fyrsta stig á mótinu. Íslenska liðið er hinsvegar með þrjú stig í milliriðlinum eftir að hafa tekið með sér stigin tvö sem unnust gegn Gíneu.
Mörk Íslands: Dagmar Guðrún Pálsdóttir 8, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 4, Lydía Gunnþórsdóttir 3, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 2, Ásrún Inga Arnarsdóttir 1, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 1, Guðrún Hekla Traustadóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 11, 37% – Elísabet Millý Elíasardóttir 1/1, 100%.
HM18 kvenna – leikjadagskrá, milliriðlakeppni, úrslit
Handbolti.is fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.